Lítil sem engin loðnuveiði verður í Barentshafi á næsta ári ef farið verður að  ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem ráðleggur aðeins 6.000 tonna veiði. Á þessu ári  var kvótinn 65.000 tonn.

Norska hafrannsóknastofnunin styður þessa niðurstöðu. Kvótinn verður ákveðinn á fundi norsk-rússnesku fiskveiðinefndarinnar í Osló síðar í þessari viku, en rétt er að minna á að nefndin hefur farið nákvæmlega eftir ráðleggingum ICES undanfarin ár.

Gert er ráð fyrir að hrygningarstofn loðnu í Barentshafi miðað við 6.000 tonna veiði verði á næsta ári 435.000 tonn.

Hrun hefur orðið í veiðiheimildum á loðnu í Barentshafi síðustu árin. Kvótinn er 65.000 tonn í ár eins og áður sagði, í fyrra var hann 200.000 tonn, árið 2012 var leyft að veiða 320.000 tonn og árið 2011 námu veiðiheimildirnar 380.000 tonnum.