Loðnuveiðar íslenskra skipa eru heimilaðar frá og með 1. nóvember samkvæmt nýrri reglugerð atvinnuvegaráðuneytisins. Upphafskvótinn er alls um 206 þúsund tonn en rúmum 200 þúsund tonnum hefur verið úthlutað á skip á grundvelli aflahlutdeildar. Skerðing vegna þátttöku í sérúthlutunum hverskonar er um 5.800 tonn (2,8% reglan).
Mestan loðnukvóta fær Vilhelm Þorsteinsson EA, 18.415 tonn eða um 9% af heildinni. Beitir NK og Börkur NK koma þar á eftir með um 16 þúsund tonn hvort skip.
Loðnuveiðar eru einnig heimilar í fiskveiðilandhelgi Grænlands og Jan Mayen. Íslensk skip mega veiða 35% af kvóta sínum í hvorri lögsögu samkvæmt nánari reglum.
Í reglugerð ráðuneytisins er tekið fram að stundi skip veiðar á loðnu vestan 18°V á tímabilinu 1. nóvember 2012 til og með 31. desember 2012 skulu Hafrannsóknastofnunin og Fiskistofa fylgjast náið með hlutfalli ungloðnu í aflanum. Skulu eftirlitsmenn vera um borð í skipum á meðan á veiðum stendur, að því marki sem stofnanirnar telja vera nauðsynlegt.
Sjá nánar á vef Fiskistofu www.fiskistofa.is