Unnið er að því að finna aðra kaupendur að íslenskum loðnuhrognum þar sem hrognainnflutningur Japana liggur niðri eftir hamfarirnar, segir sölumaður hjá Icelandic Group í samtali við RÚV.  Aðeins tveir starfsmenn í verksmiðju sem mikið hefur keypt af Íslendingum, lifðu af.

Óvissa ríkir um verð á íslenskum loðnuhrognum í kjölfar hamfaranna í Japan en Japanir hafa verið langstærstu kaupendurnir. Venjan er að aðrir kaupendur miði verð sitt við það sem japanskir kaupendur eru tilbúnir að greiða. Nú er leitað að nýjum kaupendum. Hér á landi hafa menn áhyggjur af því að í Sendai, sem varð hvað verst úti eftir jarðskjálfta og flóðbylgjur, eru margar hrognavinnslustöðvar, segir Tryggvi Pétursson, sölumaður hjá Icelandic Group.

"Við vitum ekki hvernig þetta er og erum að reyna að afla okkur upplýsinga eins og við getum. Okkar eigin skrifstofa er illa starfhæf í Tókýó og menn eiga erfitt með að komast þangað út af samgöngum," segir Tryggvi. "Ég var að frétta að í einni af þessu starfsstöðvum hefðu bara tveir lifað af."

Vefur RÚV