Loðnufrysting hófst í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði í gærmorgun og mun þetta vera fyrsti loðnuaflinn sem fer til landvinnslu á vertíðinni. Verið er að vinna úr tæplega 600 tonna loðnuafla sem Ingunn AK kom með til hafnar og að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra hentar megnið af aflanum í frystingu til manneldis.
,,Vinnslan fór mjög vel af stað. Loðnan er stór og góð og við byrjuðum að vinna loðnu úr fyrstu köstum veiðiferðarinnar. Stærsta loðnan fer í flokkinn 25 til 35 stykki í kílói en ætli meðaltalið úr umræddum köstum sé ekki nálægt 33-34 stykki í þeim stærðarflokki. Hins vegar vitum við að loðnan sem fékkst í lok veiðiferðarinnar var heldur smærri en það á eftir að koma í ljós hvernig hún flokkast,“ segir Magnús í samtali á vef HB Granda . Að hans sögn hefur flokkun loðnunnar gengið mjög vel og nýtingin til frystingar mjög góð.
Að sögn Magnúsar má reikna með því að miðað við núverandi gang í vinnslunni þá verði fryst um 400 tonn af loðnu á sólarhring. Um 65 manns vinna við frystinguna á vöktum. Aflinn úr Ingunni ætti að duga fram á daginn í dag en Lundey NS er á miðunum eftir að hafa leitað hafnar í fyrradag vegna veðurs.