Loðnugangan er nú komin vestur fyrir Reykjanes og eru loðnuskip þessa stundina að veiðum úti af Sandgerði.  Meðal skipa á  miðunum eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Beitir NK og Þorsteinn ÞH.

,,Loðnuveiðarnar hafa gengið mjög vel á vertíðinni fram að þessu og veður hefur ekki tafið okkur neitt.  Það hefur aldrei dottið niður dagur í vinnslu,“ sagði Sindri Viðarsson sviðsstóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum í samtali við Fiskifréttir í morgun.

,,Það er hins vegar spurning hvað gerist næstu daga þegar flotinn kemur inn á Faxaflóa og fer að fiska fyrir hrognatökuna en veðurspáin er því miður ekki góð. Reyndar var bræla allan tímann í fyrra meðan hrognatakan stóð yfir en samt slapp hún fyrir horn,“ sagði Sindri.