Eftir ágætis loðnuveiði á Skagagrunni, undan Norðvesturlandi, í byrjun vikunnar gerði brælu og við það datt veiðin niður. Skipin voru flest komin austur fyrir land, en héldu í nótt inn á Öxarfjörð þar sem norsk skip höfðu kastað á lóðningar.
Ebeneser Guðmundsson, stýrimaður á Heimaey VE, segir í samtali við RÚV að þeir hafi verið komnir grunnt inn á Öxarfjörð skömmu eftir miðnætti. „Og það var ekki neitt, neitt. Einhver smá lóðning sem sást þar og það varð ekkert úr því og hefur í raun ekkert verið að gerast í morgun. Það er bara verið að leita með kantinum hér vestur um og menn eru kannski að vonast til að detta niður á einhverjar lóðningar sem hægt verður að kasta á.“
Og loðnuflotinn er því nær allur grunnt undan landi frá Melrakkasléttu vestur undir Eyjafjörð. Þetta segir Ebeneser afar óvenjulegt og hann muni aldrei eftir því að skipin væru á þessum slóðum í febrúar.
„Ja, núna væri eðlilegt að við værum úti af Austurlandi og færi að styttast í að menn færu með grunnótina upp í Suðausturlandið. Færu að koma þarna upp undir Stokksnesið eða einhversstaðar á þeim slóðum. Það er þetta hefðbundna,“ segir Ebeneser.