Rætt er við starfsmenn fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þeir líkja loðnubrestinum við efnahagslegt áfall fyrir starfsfólkið. Wojciech Blaszkowski er frá Póllandi en hann hefur starfað hjá Síldarvinnslunni í tæplega þrjá áratugi og Katrín Unnur Elmarsdóttir hefur einnig áratuga reynslu af fiskvinnslustörfum.

Breytir lífi fólks

Wojciech lagði áherslu á hve loðnuvertíðin skipti starfsfólkið miklu máli og áhrif hennar væru margþætt. „Loðnuvertíðin er skemmtilegasti tími ársins í fiskiðjuverinu. Þegar loðnulyktin kemur í húsið breytist allt, allir verða glaðir og spenntir. Vinnan við loðnuna er einstaklega skemmtileg og fjölbreyttari en þegar aðrar tegundir eru unnar. Til dæmis er hrognavinnslan sérstök. Það var enginn kvóti hér við land í fyrra og í Neskaupstað var þá einungis tekið á móti loðnu frá tveimur norskum skipum ef ég man rétt. Í ár var kvótinn síðan dvergvaxinn og þá voru einungis framleidd rúm 3.000 tonn í fiskiðjuverinu.

Wojciech Blaszkowski.
Wojciech Blaszkowski.

Fyrir utan þetta er loðnubrestur efnahagslegt áfall fyrir starfsfólkið. Á þeim tíma sem loðnuvinnsla á vöktum ætti að eiga sér stað er fólk einungis að vinna átta tímana. Þetta er skellur sem kemur sér afar illa fyrir marga, ekki síst þá sem standa í íbúðakaupum og hafa tekið lán. Staðreyndin er sú að loðnubrestur breytir lífi fólks.

Þá verður að nefna að loðnubresturinn hefur þau áhrif að margir, sem hafa unnið á vertíðum áður, hafa ekki komið á staðinn. Þetta er einkum fólk frá Póllandi og Lettlandi sem hefur komið árum saman og hefur mikla reynslu af vinnslustörfunum. Vonandi rætist úr þessu og loðnuvertíð á næsta ári verði betri en sú hörmung sem við höfum upplifað tvö síðustu ár. Það skiptir svo miklu máli að loðnan veiðist, það er mikilvægt fyrir samfélagið, fyrirtækið og ekki síst fyrir þá sem starfa við veiðarnar og vinnsluna,” sagði Wojciech.

Mikilvægur þáttur í tekjuöfluninni

Katrín Unnur tók undir með Wojciech og sagði loðnuvertíðina skemmtilegasta tíma ársins í vinnunni. „Það ríkir ávallt ákveðin stemmning þegar loðna er unnin. Þess vegna er það alltaf áfall þegar loðna er ekki veidd en auk þess er hið efnahagslega áfall grafalvarlegt. Hefðbundin loðnuvertíð stendur venjulega frá því í janúar til loka marsmánaðar og hún er mikilvægur þáttur í tekjuöflun starfsfólksins.

Katrín Unnur Elmarsdóttir.
Katrín Unnur Elmarsdóttir.

Á vertíðinni er unnið á 12 tíma vöktum og gefur það mjög góðar tekjur en ef loðna veiðist ekki er einungis unnin dagvinnan á umræddu tímabili. Tekjur okkar fyrir dagvinnuna eru um 600 þúsund krónur á mánuði en þegar unnin er vaktavinna eru þær um 1.400 þúsund krónur á mánuði. Þetta er sláandi munur og það hefur ótrúleg áhrif á efnahagslega stöðu starfsfólks hvort er vertíð eða ekki. Eðlilega gera menn ráð fyrir vertíðartekjunum og því er loðnubresturinn mikið áfall. Þegar fjallað er um loðnubrest í fjölmiðlum er gjarnan farið yfir áhrif hans á ríkissjóð, sveitarfélög og fyrirtæki en það er sjaldan fjallað um bein áhrif á þá sem vinna við loðnuna. Auðvitað eru menn daprir yfir loðnubrestinum en það þýðir samt ekkert annað en trúa því að þetta verði betra næst,” sagði Katrín Unnur.