Uppsjávarskipin Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK eru einu skipin við loðnuleit um þessar mundir úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi. Framundan er stærsta loðnuvertíð í um tvo áratugi ef allt fer á besta veg. Veiðar máttu hefjast um miðjan október en lítið sem ekkert hefur veiðst fram að þessu.
Í gær var bongóblíða á miðunum þar sem skipin höfðu fundið góðar lóðningar. Loðnan heldur sig djúpt og var lítt veiðanleg þegar Fiskifréttir heyrðu í Leifi Þormóðssyni stýrimanni á Berki.
„Þetta er hálf rólegt yfir þessu. Við erum hérna djúpt norður af Þverálshorninu og Bjarni Ólafsson er hérna líka og var að draga nótina einmitt á þessari stund. Þeir eru að segja mér núna að þetta sé mjög smá loðna og ekki mikið af henni. Við tókum kast í nótt og það var ekkert í því annað en tveir hvalir. Það er að sjá lóð hérna en þetta stendur djúpt. Það hafa verið lóð hérna víða en þetta á eftir að hlaupa saman í veiðanlegar torfur. Líklega er loðnan eitthvað á austurleið,” segir Leifur.
Lóðningar við Kolbeinseyjarhrygg
Brælur hafa verið þrálátar úti fyrir þessum landshluta og erfiðleikum verið bundið að leita að loðnu. Veðrið gekk niður í fyrradag og fínasta veður var í gær þegar rætt var við Leif. Sjávarhitinn við kantinn vestan við Halann hafði síðast verið tvær gráður en hafði áður farið alveg niður í minus eina gráðu. Þeir sáu líka lóðningar við Kolbeinseyjarhrygginn og reyndu fyrir sér þar án árangurs. Síðan varð vart lóðninga norður af Þverálshorni þar sem skipin voru að reyna fyrir sér í gær.
Þær fréttir höfðu borist af togaraflotanum úti fyrir Vestfjörðum að talsvert líf sé á svæðinu og fiskur sem fáist sé fullur af loðnu.
Bara sjór í tönkum
Börkur NK er nýjasta uppsjávarskipið í flotanum. Það er með þrettán kælitanka fyrir afla og er burðargetan rúmlega 3.300 tonn. Í tönkunum þessa stundina er fátt annað en sjór en Leifur er þó bjartsýnn á framhaldið. Vissulega væri betra ef fleiri skip væru við loðnuleit. Spurnir höfðu borist af því að Svanur RE, áður Iivid, nýtt uppsjávarskip Brims, væri á leið á miðin. Polar Amaroq sem fyrst skipa hóf loðnuleit, liggur við bryggju í Norðfirði með biluð spil.
Á svæðinu er einungis heimilt að veiða í loðnunót og segir Leifur mikla strauma fyrir vestan torvelda veiðarnar. En nýi Börkur er stórt og öflugt skip sem höndlar þetta ágætlega. Þetta sé þolinmæðisvinna og aldrei að vita hvenær almennilega fari að veiðast. Menn séu þó bjartsýnir á framhaldið.