Stór hluti íslenska loðnuflotans var við veiðar austur af Elliðaey við Vestmannaeyjar í þegar rætt var við Jóhannes Danner, skipstjóra á Jónu Eðvalds SF 200. Þar var mikið af loðnu en hún var fremur dreifð. Hrognafyllingin þar var komin í 16-17% sem hentar fyrir frystingu inn á Japansmarkað.
Jóhannes segir að nú bíði menn spenntir fregna af endanlegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en allt stefni í fyrirtaks loðnuvertíð hvernig sem allt fer. Góð veiði hafi verið suður af landinu síðustu daga og verði veðrið til friðs megi búast við hörkuveiði næstu dagana.
Jóna Eðvalds hafði í byrjun vikunnar landað tíu sinnum á þessari loðnuvertíð alls tæpum 14 þúsund tonnum og var því kominn yfir helming af sinni úthlutun. Aflahæsta skipið er Vilhelm Þorsteinsson EA með tæp 25 þúsund tonn í 8 löndunum. Mestum afla það sem af er vertíðar hefur verið landað í Vestmannaeyjum, tæpum 53 þúsund tonnum, og tæplega 51 þúsund tonni í Neskaupstað. Á þriðjudag var búið að veiða tæplega 323 þúsund tonn af 662 þúsund tonna kvóta sem kom í hlut Íslands en Hafrannsóknastofnun hefur gefið út að heildarkvóti loðnu geti dregist saman um 100 þúsund tonn.
Hellingur að sjá
„Það var hellingur að sjá hérna í morgun en svo virðist vera eitthvert ástand á þessu. En þetta formar sig á eftir,“ sagði Jóhannes Danner þegar rætt var við hann á þriðjudag. Um tíu loðnuskip voru þá Elliðaey og voru þau að fá allt frá 100 og upp í 300 tonn í köstum. Loðnan var að ganga á Kapalinn, bannsvæði milli lands og Eyja þar sem vatnsleiðslan liggur til Vestmannaeyja.
Jóhannes sagði gönguna hraða vestur með Suðurlandi og mönnum virðist sem það sé að bæta í gönguna allt frá Háfadjúpi. Áður en þeir komu að Elliðaey höfðu þeir fengið ágæt köst í Meðallandsbugtinni en Jóhannes segir meira að sjá þarna við Eyjar. Þetta sé líka fljótt að breytast. Það geti verið rólegt yfir þessu fyrir hádegi og svo bullandi veiði eftir hádegi.

- Jóhannes Danner, skipstjóri á Jónu Eðvalds. Aðsend mynd
„Það er fínasta veður hérna en kvikuandskoti en það er skítviðri fyrir austan. Við fórum líka yfir hellingsloðnu austan við Ingólfshöfða. En þar má eiginlega ekki kasta því loðnan er komin skemur á veg þar í hrognafyllingu. Heimaey tók prufu þarna og hrognafyllingin var 11-12% en hérna við Eyjar er hún komin í 16-17%. Jappinn vill þessa loðnu sem er hérna en síður þá sem er þarna austur við Höfða. Þetta hefur verið að koma í mörgum spýjum og líklega einar sex til sjö spýjur þegar við vorum á trollinu. Það lítur bara mjög vel út með þá loðnu eftir svona eina viku. Þá verður hún hér út af Þorlákshöfn og komin í fínt hrognastand. Það verður örugglega víða hægt að fá loðnu þegar frá líður,“ segir Jóhannes.
Skuldum Norðmönnum ekkert
Hann segir að nú fari allir að beita sér á fullu við veiðarnar þegar loðnan fer að verða frystingarhæf fyrir Japansmarkað. Sumir ætli sér þó að geyma slatta fyrir hrognatökuna enn síðar.
Staðan er önnur fyrir austan land þar sem norski loðnuflotinn er við takmarkaðar veiðar eða við bryggju. Jóhannes segir þeim sé engin sérstök vorkunn. „Maður hefur svo sem samúð með þeim því þarna er ekkert að hafa en við verðum bara að passa upp á okkar. Norðmenn hafa ekki gefið okkur tommu eftir, hvergi. Ég heyrði þó af því frá kunningja á norsku skipi að það hefði verið talsvert að sjá í Héraðsflóadýpi en það hefði staðið svo djúpt að það var ekki veiðanlegt.“