Hrygningarganga íslensku loðnunnar - hvar, hvenær og hvers vegna? er heiti á erindi sem dr. Anna Heiða Ólafsdóttir flytur í málstofu Hafrannsóknastofnunar í fundarsal á fyrstu hæð að Skúlagötu 4, föstudaginn 1. febrúar kl. 12:30.
Loðna er ein af mikilvægustu fisktegundum Íslandsmiða þar sem hún er bæði mikilvægur hlekkur í fæðukeðju hafsins og verðmæt veiðitegund, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun þar sem ágrip að erindi Önnu Heiðu er kynnt.
Loðna hefur aðlagast norðlægum heimkynnum sínum vel, með því að synda á vorin norður í djúpt og kalt Íslandshaf (67 -72°N; >500 m; 1-3°C) til að nýta þau fæðusvæði yfir sumarið og syndir síðan suður á veturna til að hrygna á grunnslóð í heitari sjó meðfram suður- og vesturströnd Íslands (63-64°N; <100 m; 5-7°C).
Ferill og tími hrygningargöngunnar var rannsakaður hjá 13 árgöngum milli 1992 og 2007 með því að greina bergmálsgögn frá stofnstærðarmælingum Hafrannsóknastofnunar á loðnu.
Loðnan notar sömu gönguleiðina, undan austurströnd Ísland, ár hvert frá sumarfæðusvæði sínu til hrygningarstöðvanna. Fyrir norðan 65 gráður norður, fylgir loðnan landgrunnshlíðinni (> 200 m dýpi) í lagi af köldum sjó, hitastig um 2,5°C. Sunnar, milli 65 og 64°N, þar sem hitastig sjávar hækkar í 5 til 8°C beygir loðnugangan skyndilega inn á landgrunnið (< 200 m dýpi) í átt að hrygningarsvæði sínu. Loðnu virðist vera meðfætt að synda suður í leit að hrygningarsvæði og notar botndýpi og hitastig sem leiðarvísa.
Ferli og tímasetningu hrygningargöngunnar virðist stjórnað af nokkrum mismunandi þáttum. Það virðist meðfætt hjá loðnu að synda í suðurátt, eftir að hún verður kynþroska. Gangan fylgir síðan landgrunnsbrúninni uns hún kemur suður í hlýjan Atlantssjó. Þar bíður loðnan fyrir utan landgrunnið uns hrognafylling er orðin 12–14% þá syndir hún inn á landgrunnið til heppilegra hrygningarsvæða.
Hitastig virðist ráða miklu um hvar og hvenær hrygningarloðna leitar inn á landgrunnið. Ef hitastig sjávar á gönguleið, hækkar umtalsvert (yfir 4.5°C) gæti hrygningarsvæði loðnunnar færst norður fyrir Ísland eins og gerðist um 1925.
Þessi langa hrygningargönguleið meðfram landgrunnsbrúninni og einkum biðsvæðið utan landgrunnsins gæti hafa þróast til að minnka þorskafrán sem er miklu meira yfir landgrunninu.