Á fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 106 milljarða króna. Það er um 12% aukning í krónum talið miðað við sama tímabil í fyrra, að því er segir í greiningu SFS.
Á fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti loðnuafurða komið í 16,5 milljarð króna samanborið 9,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Er því um 70% aukningu að ræða í útflutningsverðmætum loðnuafurða á milli ára í krónum talið.
Mjöl og lýsi
Samsetning loðnuafurða er þó allt önnur nú í ár en í fyrra. Útflutningur á loðnumjöli og lýsi er margfalt fyrirferðameiri á fyrstu fjórum mánuðunum nú í ár en í fyrra, enda kvótinn margfalt stærri sem breytir áherslum í vinnslu. Samanlagt er útflutningsverðmæti mjöls og lýsis um 77% af heildarverðmætum útfluttra loðnuafurða í ár samanborið við tæp 6% á sama tímabili í fyrra. Loðnuhrogn fóru að birtast af töluverðum krafti í útflutningstölum í apríl í fyrra en þau eru ekki nærri eins fyrirferðarmikil í apríl í ár. Svipaða sögu er að segja um heilfrysta loðnu.
„Þetta getur orsakast af mörgum þáttum eins og þeim flöskuhálsum sem myndast hafa í flutningum á milli landa þar sem staðan er almennt erfiðari eftir því sem fjarlægðin er meiri. Hertar sóttvarnaraðgerðir í Kína hafa til að mynda gert það að verkum að erfiðara gengur að koma afurðum á markað þar í landi. Þá eru áhrifin af stríði í Úkraínu einnig víðtæk,“ segir í greiningunni.