Loðnuskipin eru nú að veiðum á tveimur svæðum við landið, annars vegar úti fyrir Norðurlandi vestan við Siglufjörð og hins vegar úti af Vestfjörðum.

Sigurður VE var staddur á Kópanesgrunni úti fyrir miðjum Vestfjörðum þegar Fiskifréttir náðu tali af Herði Má Guðmundssyni skipstjóra nú skömmu fyrir hádegi í dag, en nokkur fleiri skip voru þar á slóðinni. Hörður sagði að loðnuafli hefði fengist seint í gær en í dag væri rólegt og lítið að sjá. Hins vegar hefði verið mokveiði í gær vestan við Siglufjörð.

Allmörg skip voru enn á norðursvæðinu í morgun eða á leiðinni þangað en ekki tókst að ná símsambandi við neitt þeirra nú áðan. Loðnan fyrir norðan á lengra eftir í hrygningu en sú fyrir vestan og voru menn að gera sér vonir um að hægt væri frysta hana fyrir Japansmarkað. Þau skip sem eru að reyna við loðnu úti af Vestfjörðum eru á höttunum eftir loðnu til hrognakreistingar.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er nú í marstalli á svipuðum slóðum og loðnuskipin fyrir vestan halda sig og hafa ekki fundist nein merki um vestangöngu enn sem komið er að minnsta kosti.