Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er nú í loðnumælingarleiðangri meðfram kantinum úti af Austur-Grænlandi í óvenjuhagstæðum skilyrðum. Íslaust hefur verið á slóðinni og veður eins og best verður á kosið. Skipið fann loðnu alveg norður undir 73. gráðu en aldrei áður hefur verið farið svo norðarlega í þessum leiðöngrum.

„Það hefur verið óslitið lóð meðfram öllum Austur-Grænlandskantinum á rúmlega 200 mílna kafla en lóðningarnar hafa yfirleitt verið mjög gisnar, hvergi verulega sterkar og greinilega ekkert gríðarlegt  magn á ferðinni,“ sagði Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri í samtali við Fiskifréttir í gærmorgun. „Þetta er fyrst og fremst stór kynþroska loðna. Fram að þessu höfum við lítið orðið varir við ungloðnuna en venjan er að hún haldi sig sunnar og þá á því svæði sem við höfum ekki farið yfir ennþá.“

Engar tölur liggja ennþá fyrir um mælt loðnumagn  í leiðangrinum.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.