Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er nú við loðnumælingar úti fyrir Suðurlandi en ekki liggja fyrir neinar niðurstöður ennþá. Fá skip eru á miðunum enda veður óhagstætt.
Árni Friðriksson fór út frá Akureyri síðastliðinn föstudag og leitaði fyrst grunnslóðina og út við kantana úti af Vestfjörðum. Á sama tíma leitaði rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson í Grænlandssundi og norður um. Engin merki fundust um vestangöngu loðnunnar.
„Síðan fórum við suður fyrir land og mættum göngunni vestan við Þorlákshöfn,“ sagði Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni, þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann skömmu fyrir hádegi í dag. „Við vorum í loðnu þaðan, í kringum Vestmannaeyjar og austur undir Kötlutanga en ekkert hefur verið að sjá þar fyrir austan. Við erum nú aftur á leið vestur á bóginn en það er farið að bræla þar og spáin slæm þannig að skilyrði til mælinga eru ekki sem skyldi. Það er ekki skynsamlegt að vera að þvælast uppi í fjöru við mælingar í vitlausu veðri.“
Sveinn kvaðst ekki vilja tjá sig neitt um það magn loðnu sem væri á ferðinni enda lægju útreikningar úr mælingunum ekki fyrir.
„Það voru þarna blettir með þó nokkuð af loðnu en þeir voru ekki stórir. Við urðum varir við dálítið af loðnu austur úr Heimaey, milli Stórhöfða og Bjarnareyjar, og svo aftur sunnan við Stórhöfðann og efst í Háfadjúpinu og þar upp úr. Vera kann að loðnan hafi gengið dýpra utan við kantana hér vestur úr og komið þar upp. Þetta er frekar óvenjulegt göngumynstur en þó ekkert einsdæmi,“ sagði Sveinn.