Loðnumæling stendur nú sem hæst. Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og grænlenska veiðiskipið Polar Amaroq eru fyrir norðan land að mæla, bæði djúpt og grunnt.

„Það er loðna í djúpkantinum norðaustur af landinu og alveg norður fyrir Kolbeinsey,  en það hefur líka komið gusa mjög grunnt fyrir Norðurlandinu sem gerir það að verkum að mælingin er heldur tímafrekari en við gerðum ráð fyrir í upphafi. Skipin eru að reyna að klára mælinguna þrátt fyrir leiðindaveður,“ sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun, þegar Fiskifréttir inntu hann eftir gangi mála nú um hádegisbil í dag, þriðjudag.

„Veður tafði dálítið fyrir mælingu í nótt og í augnablikinu er leiðindabræla. Það er einhver von um að þeir nái að skrölta áfram en varla meira en svo,“ segir Þorsteinn, en von er bundin við að verkinu ljúki síðar í vikunni.

Polar Amaroq var í mynni Skagafjarðar í nótt og var enn úti af firðinum þegar rætt var við Þorstein. Árni Friðriksson var þá miklu norðar. Skipin eiga eftir að fara yfir svæðið vestan við Kolbeinseyjarhrygg en ekki er vitað hversu langt vestur þarf að fara.

Þorsteinn sagði ekkert hægt að segja á þessari stundu um magn loðnu í þessari mælingu.

Það er af norsku loðnuskipunum að segja að vegna þess hve mikil áta var í loðnunni úti af norðausturlandi halda skipin sig nú úti af Norðurlandi. Þau köstuðu þar í nótt og fengu einhvern afla.