,,Núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, brýtur blað í sögu fiskveiðistjórnunar á Íslandi með því að óska eftir lagaheimild frá Alþingi til þess að fá að ofveiða tiltekinn fiskistofn, skötusel, sem nemur 80% umfram ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunarinnar," segir í athugasemd LÍÚ vegna fréttatilkynningar ráðherrans fyrr í dag.
LÍÚ segir að þessi beiðni ráðherra sé í algerri mótsögn við þá ímynd sem Ísland hafi skapað sér á meðal ábyrgra fiskveiðiþjóða. Þá sé hún í fullkominni andstöðu við yfirlýstar áherslur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um mikilvægi sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda.
Bent er á að í skötuselsfrumvarpinu sé gert ráð fyrir að ráðherra hafi til ráðstöfunar allt að 2.000 tonn af skötusel á yfirstandandi fiskveiðiári og aftur á því næsta. Þótt jafnframt sé látið að því liggja að heimildin verði aðeins nýtt að litlum hluta breyti það þó engu um það að ákvæðið hljóði upp á 2.000 tonn, 80% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Fram kemur að LÍÚ hafi fyrr í vetur óskað eftir áliti Hafrannsóknarstofnunar á áhrifum þess á skötuselsstofninn að auka afla úr 2.500 tonnum í 4.500 á næstu tveimur árum. Í svari stofnunarinnar segi m.a. að slík aukning samræmist ekki stefnu um sjálfbæra nýtingu og geti varla talist ábyrgar fiskveiðar.
Sjá nánar athugasemd LÍÚ og svar Hafrannsóknastofnunarinnar á vef LÍÚ, HÉR