„Við erum ekki að halda því fram að það hafi verið einhver hætta á ferð en þarna er stigið yfir línu og fólk spyr sig hvað sé næst,“ segir Viðar Ólason, sviðsstjóri veiðieftirlits Fiskistofu, um skothríð sem gerð var að dróna stofnunarinnar inni á firði einum fyrir vestan.

Veiðieftirlitsmaður sem var einn á ferð og stýrði drónanum úr landi varð að sögn Viðars var við að skipverji á fiskibáti náði í haglabyssu inn í stýrishús og skaut tvisvar að drónanum. Síðan hafi eftirlitsmaðurinn sett upptöku í gang og myndað þegar þriðja skotinu var hleypt af.

„Hann heyrði alveg í skotunum okkar maður. Hann var einn og þetta er mjög ónotalegt. Þetta hefur áhrif á fólk,“ segir Viðar. Þetta atvik sé ekki líkt neinu öðru sem hafi hent við eftirlitið.

„Vissulega erum við alltaf að hitta einhverja sem eru svona fúll á móti þó að heilt yfir gangi þessi samskipti vel,“ segir Viðar. Hann hafi hins vegar heyrt af neikvæðri umræðu um drónaeftirlitið á spjallþráðum samfélagsmiðla. „Menn hafa verið með hótanir um að „skjóta þetta helvíti niður“ og eitthvað í þeim stíl. Þarna dettur einum manni að þetta sé sniðugt og skýtur þremur skotum að drónanum.“

Ekki í vafa um ásetninginn

Viðar Ólason.
Viðar Ólason.

Viðar segist ekki vita hvort menn hafi lesið lög um stjórn fiskveiða eða lög um umgengni við nytjastofna sjávar en það sé einfaldlega óheimilt að henda fiski.

„Þetta hefur ekkert með okkar hugmyndir hjá Fiskistofu að gera heldur eru þetta einfaldlega lög í landinu. Fiskistofa setur ekki lögin en henni ber að framfylgja þeim. Hér þarf einhver að standa í stafni og það erum við sem gerum það,“ undirstrikar Viðar.

Aðspurður kveður Viðar starfsmenn Fiskistofu í engum vafa um að skotunum hafi verið ætlað að hæfa drónann þó svo að þau hafi öll geigað, sennilega vegna þess að skotið hafi verið úr haglabyssu af nokkru færi. Eftirlitsmaðurinn hafi sem fyrr segir sett upptöku í gang áður en þriðja og síðasta skotið reið af. „Það er mjög skýrt í okkar huga hvað þarna var í gangi.“

Best að segja satt frá

Atvikið átti sér stað í ónefndum firði fyrir vestan og segir Viðar kæru frá Fiskisstofu á leið inn á borð hjá lögreglunni á Vestfjörðum á næstu dögum. „Þar fer málið í sinn farveg og það snýst þá bara um virðingu manna hvaða leikrit þeir ætla að setja á svið og hvaða orku þeir ætla að eyða í það. Stundum er bara best að segja satt og rétt frá.“

Viðar segir þennan atburð setja Fiskistofu í vanda og að ekki sé hægt að hunsa hann. „Það er kannski ekki verið að ráðast beint á eftirlitsmennina okkar en það er búið að draga upp byssu þegar það er viðhaft eftirlit. Við lítum á þetta sem árás á okkur öll, ekki aðeins á einn dróna. Þarna var farið yfir línu sem hefur ekki verið stigið yfir áður,“ segir hann. Starfsfólkinu standi vitanlega ekki á sama.

Finnist í lagi að henda fiski

Varðandi viðurlög við því að hindra störf eftirlitsmanna segir Viðar Fiskistofu ekki hafa sektarheimildir og ekki önnur úrræði en áminningu og veiðileyfasviptingu. Eftirlitinu segir Viðar starfsfólk Fiskistofu reyna að sinna á sem bestan hátt.

„Við höfum náttúrlega fengið gagnrýni á okkur, eins og frá Ríkisendurskoðun, um að eftirlit á brottkasti sé veikburða,“ segir Viðar. Starfsfólk Fiskistofu hafi byrjað að æfa drónaflug haustið 2020 og flogið fyrst til eftirlits á árinu 2021. Í kjölfarið hafi brotamál vegna brottkasts margfaldast.

„Á fyrsta árinu voru 140 brottkastsmál  miðað við að áður vorum með um tíu mál að meðaltali á ári. Það hefur ekki  verið mikil umræða um þetta en mönnum finnst greinilega eðlilegt að fiski sé hent – þó að það sé bannað,“ segir Viðar Ólason.