Stofnvísitala ýsu hefur lækkað frá 2015 og er nú svipuð og árin 1996-2000. Á árunum 2001-2006 hækkaði hún í kjölfar góðrar nýliðunar, en fór ört lækkandi næstu fjögur árin þar á eftir. Þetta eru niðurstöður úr haustralli Hafrannsóknastofnunar.

Lækkunina í ár má rekja til lítilla árganga frá 2008-2013. Lengdardreifing sýnir að ýsa minni en 40 cm er undir meðaltali í fjölda. Vísitala árgangsins frá 2014 er nú undir meðaltali sem er töluverð breyting á fyrra mati en hann hefur verið talinn frekar stór, bæði samkvæmt vorralli og fyrri haustmælingum. Vísitölurnar benda til að árgangar 2015 og 2016 séu undir meðalstærð. Meðalþyngd eftir aldri hefur hækkað umtalsvert síðan 2010 og er um eða yfir meðaltali hjá 3-8 ára ýsu. Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum landið en eins og undanfarin ár fékkst mest af henni fyrir norðan land.