Á vef Guðmundar og Jósefs Stefánssona birtist þessi skemmtilega mynd af togarinn Málmey SK og skemmtiferðaskipið Eurodam þar sem þau lágu saman við Skarfabakka í Reykjavík í haust.

Málmey SK, sem telst sæmilega stórt skip í íslenska flotanum og er í hópi þeirra sem mestu aflaverðmæti skila, verður harla lítil í samanburði við hollenska risann.

Stærðarmunurinn er sláandi enda telst skemmtiferðaskipið vera 86.700 brúttótonn meðan Málmey er 1.469 BT.

Eurodam er 285 metra langt skip en Málmey 56 metrar.  Breidd Eurodam er 32 metrar en breidd Málmeyjar 12 metrar. Vélarafl Eurodam er 64.000 kW en Málmeyjar 2.200 kW.

Ellefu farþegaþilför eru á Eurodam og rúm fyrir 2.104 farþega. Í áhöfn eru 929 manns.