Þrisvar sinnum á aðeins rúmum áratug tóku flutningaskip niðri í innsiglingunni að Höfn í Hornafirði og urðu stjórnlaus. Rannsóknanefnd sjóslysa telur einsýnt að mikil hætta sé á fleiri óhöppum og vill aðgerðir til að draga úr þeirri hættu. Rannsóknir á svæðinu eru taldar nauðsynlegar svo gera megi innsiglinguna í Hornafjarðarhöfn greiða og örugga. Núverandi aðstæður við innsiglinguna eru taldar standa uppbyggingu atvinnulífs á Höfn fyrir þrifum.
Haukur
Þann 1. apríl 2015 var flutningaskipið Haukur að koma til hafnar á Höfn í Hornafirði. Á hefðbundinni siglingaleið tók skipið niðri með þeim afleiðingum að stýri þess varð sem næst ónothæft. Lokaskýrsla Rannsóknarnefndar sjóslysa var afgreidd í október í fyrra þar sem niðurstaðan var að orsök þess að skipið tók niðri var að dýpi var ekki í samræmi við það sem gefið er upp í sjókortum.
Í skýrslu sinni gerði nefndin það að tillögu sinni að með „óbreyttu ástandi sé mikil hætta á því að fleiri skip eigi eftir að taka þarna niðri og gerir því eftirfarandi tillögu í öryggisátt: Nefndin leggur til að gerðar verði nákvæmar dýpismælingar utan Hornafjarðaróss og þeim stöðugt haldið réttum.“
Þar segir jafnframt að hér sé langt í frá um að ræða einstakt tilfelli. Systurskip Hauks, Sava Lake, tók niðri á leið að ósnum 6. apríl 2002 og flutningaskipið Alma tók niðri því sem næst á sama stað og Haukur þann 5. nóvember 2011.
Óháð þessum þremur atvikum sem kom til kasta nefndarinnar er sú staðreynd að fiskiskip á leið til hafnar taka ítrekað niðri, og sama á við um stærri skip þó þau sæti lagi á flóði til að komast til hafnar.
Mikið hagsmunamál
Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði, hefur sagt að núverandi aðstæður við innsiglinguna standi uppbyggingu atvinnulífs á Höfn fyrir þrifum. Við þessar aðstæður kemur fyrir að stærri fiskiskip neyðast til að fara annað til löndunar, og að sögn bæjarstjórans telur það hratt í bókhaldi fiskibæjar þegar fullhlaðin skip sigla framhjá. Þá er endurnýjun í flotanum, ekki síst ný uppsjávarveiðiskip, í eina átt; stærri og öflugri skip. Slík uppbygging er ekki möguleg á Höfn að óbreyttu, og mun takmarka enn möguleika staðarins til að taka á móti afla þegar til framtíðar er litið.
„Skipin eru að taka ítrekað niðri og þetta verður að skoðast líka út frá öryggi sjómannanna. Það er mikið hagsmunamál, svo ekki sé kveðið fastar að orði, að menn séu ekki að stranda skipum sínum í hvert sinn sem þeir sigla hér inn til hafnar,“ sagði Björn Ingi í viðtali við Fréttablaðið ekki alls fyrir löngu.
Mikilvæg höfn
Hornafjarðarhöfn er eina höfn strandlengjunnar frá Djúpavogi að Bakkafjöru. Mikilvægi hennar er því ótvírætt og á undanförnum árum hefur staða hennar verið treyst með umbótum á innsiglingunni um Hornafjarðarós; byggðir voru sjóvarnar- og leiðigarðar beggja vegna Hornafjarðaróssins og hafa þær framkvæmdir skilað góðum árangri. Öll rök standa þó til þess að ekki hafi verið nóg að gert. Því sé mikilvægt að rannsóknum á Hornafjarðarós og áframhaldandi umbótum á innsiglingunni verði haldið áfram. Tekur það ekki síst til rannsókna á Grynnslunum, sandrifi utan við Hornafjarðarós, sem er ekki síst varhugaverður farartálmi skipa á leið inn til hafnarinnar á staðnum fyrir utan ósinn sjálfan.
Það var niðurstaða rannsóknar sem Vegagerðin stóð fyrir, eins og segir í skýrslu sem lá fyrir í febrúar 2015. Þar var sett fram tillaga um rannsóknaáætlun til þriggja ára sem hefur það að markmiði að leita leiða til að auka dýpi á Grynnslunum, en til þess að unnt sé að hrinda henni í framkvæmd væri nauðsynlegt að tryggja henni fjármagn. Frá árinu 2015 til 2017 hafa verið viðvarandi rannsóknir við Hornafjarðarós en þó engin fjárveiting fyrir árið 2017.
„Um vorið 2015 var ástand slæmt á Grynnslunum, mikill sandur hafði borist inn á þau og grynnkun veruleg. Gripið var til þess að dæla rennu í gegnum Grynnslin og voru fjarlægðir um 40.000 rúmmetrar af sandi sem gerði mikið gagn, en þó þegar haustar og ölduorka eykst jafnast sandurinn aftur smátt og smátt, en aðstæður urðu þó skárri á eftir og hefur verið „venjulegt“ ástand síðan eða um 7 metra dýpi,“ segir Björn Ingi.
Samkvæmt rannsóknaráætlun Vegagerðarinnar miða rannsóknirnar að því að finna leiðir til að auka dýpi á Grynnslunum og eru í nokkrum liðum
„Það má segja að umhverfismælingum í rannsóknaráætluninni sé lokið. Þar eru aðal verkefnin dýptarmælingar og botnsýnatökur á Grynnslunum og einnig á stærra svæði. Straummælingar í ósnum og fjörðunum (Hornafirði og Skarðsfirði). Sjávarhæða og landmælingum er lokið. Eftir er að efnisburðar- og öldufarsreikna svæðið og útbúa straumalíkan sem tekur á áhrifum landriss á strauma á svæðinu,“ segir Björn Ingi.
Samkvæmt heimildum Fiskifrétta er kostnaður við rannsóknirnar á sjöunda tug milljóna, en rannsóknir tengdar hafnamálum hafa legið að mestu niðri frá hruni. Í upplýsingum frá Vegagerðinni kemur fram að rannsóknaáætlun hefur verið fylgt eftir eins og fjárveitingar leyfa en þær hafa verið takmarkaðar, og í ár verða þær engar eins og vikið var að.
Jökull setur strik í reikninginn
Viðmælendur Fiskifrétta virðast flestir á því að aðstæðurnar við innsiglinguna til Hafnar séu ógn við öryggi sjófarenda og farartálmi stærri skipa ef ekkert er að gert. Hins vegar megi gefa sér að allar framkvæmdir til að breyta aðstæðum til batnaðar myndu kosta stórfé – enda sé það ekkert íhlaupaverk að eiga við náttúruöflin á þessum stað við strönd Íslands.
Hins vegar sé það ábyrgðarhlutur að ljúka ekki þeim rannsóknum sem þegar er búið að skilgreina að eru nauðsynlegar. Ekki dragi það úr nauðsyn rannsókna að Höfn í Hornafirði stendur 15 sentímetrum hærra en bærinn gerði árið 1997, en ástæðan er minna farg jökulþekju Vatnajökuls vegna bráðnunar hennar.
Segir í skýrslu Vegagerðarinnar að Hornafjörður sé „á þeim stað á landinu þar sem landris hefur mælst einna mest. Fyrir liggja spár um aukið landris á næstu árum. Vegna þess hve lónin eða firðirnir inn af ósnum, Hornafjörður og Skarðsfjörður, eru grunn, þá eru líkur á að rennslið um ósinn muni minnka verulega. Ekki er ljóst hvernig Hornafjarðarós muni bregðast við minnkandi streymi um Ósinn og hvaða áhrif það hefur á dýpi á Grynnslunum, en rannsóknaáætlunin mun einnig fjalla um þann þátt.“