Heildarútflutningur norskra sjávarafurða nam um 53 milljörðum króna (1.085 milljörðum ISK) á árinu 2011 sem er lítilsháttar samdráttur frá árinu 2010 vegna minni sölu á eldislaxi, að því er fram kemur í tölum frá Norska sjávarafurðaráðinu (Norges sjømatråd).

Síðasta ár varð hins vegar metár í Noregi í útflutningi á hefðbundnum sjávarfurðum, þ.e. afurðum unnum úr villtum fiski. Útflutningurinn nam um 22 milljörðum norskra króna (um 450 milljörðum ISK) og er það aukning um 1,7 milljarða. Norska sjávarafurðaráðið segir að hefðbundinn norskur sjávarútvegur byggi á einu af bestu stjórnkerfi í heimunum og á grundvelli þess hafi þessi gríðarlega góði árangur náðst! Metútflutningur hafi orðið í ýsu, ufsa, síld og makríl á árinu 2011.

Sem dæmi um aukninguna má nefna að útflutningsverðmæti þorskafurða jókst um 430 milljónir króna á árinu 2011 og nam um 6,1 milljarði (125 milljörðum ISK). Útflutningsverðmæti síldar jókst um 500 milljónir og nam 4,2 milljörðum (86 milljörðum ISK). Útflutningsverðmæti makríls jókst um 487 milljónir og nam 3,5 milljörðum (71 milljarði ISK). Útflutningsverðmæti á ufsa jókst um 135 milljónir og nam 2,1 milljarði (43 milljörðum ISK).

Fiskeldið skilaði um 31 milljarði (635 milljörðum ISK) í útflutningsverðmæti sem er um 2,3 milljarða króna samdráttur. Skýringin á því er verðlækkun á eldislaxi sem varð á miðju ári 2011. Þrátt fyrir samdráttinn er útflutningsverðmæti eldisfisks frá Noregi mjög mikið í sögulegu samhengi. Árið 2011 er annað besta árið í útflutningi á eldislaxi og kemur þar næst á eftir metárinu 2010.

Í heild nam útflutningur sjávarafurða frá Noregi á árinu 2011 um 53 milljörðum króna (1.085 milljörðum ISK) eins og áður segir. Eftir um samfellda aukningu útflutningsverðmæta sjö ár í röð dróst útflutningurinn saman í verðmætum talið um 1,2% frá metárinu 2010. Um 2,3 milljónir tonna af sjávarafurðum voru fluttar út árið 2011 og er það um 339 þúsund tonnum minna en árið 2010.