Danir hafa sérstöðu innan Evrópusambandsins hvað varðar brottkast á fiski. Þeir komu á kvótakerfi með framseljanlegum aflaheimildum fyrir fjórum árum og hafa því möguleika á því að leigja til sín eða skipta á veiðikvótum ef þeir fá fisk sem þeir eiga ekki aflaheimildir fyrir. Í öðrum löndum ESB eru sjómenn neyddir til að henda fiski þegar svona er ástatt.

Í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren segir að af þessum sökum sé brottkast fisks af dönskum fiskiskipum í lágmarki miðað við önnur ESB-ríki. Í bænum Hanstholm er rekin kvótamiðlun ( www.puljefiskeri.dk ) sem 630 útgerðir víðs vegar í Danmörku eiga aðild að en þær hafa yfir 788 fiskiskipum að ráða. Þar er hægt að leigja kvóta eða skipta á þeim.

Kílóið af leigukvóta þorsks kostar 10 danskar krónur eða jafnvirði 215 íslenskra króna. Fiskeribladet/Fiskaren hefur eftir einum dönsku útgerðarmannanna að betra sé að fá fimm danskar krónur (ígildi rúmlega 100 íslenskra króna) fyrir þorskinn en að fleygja honum í sjóinn.