Þrjú skip hafa síðustu daga leitað að loðnu úti fyrir Austfjörðum. Loðnugöngur hafa sést úti fyrir Vestfjörðum en þar virðist ungloðna á ferðinni.

Austurfrétt greinir frá.

Þar segir að Polar Amaroq, skip grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, hélt fyrst af stað til leitar á laugardag. Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunarinnar, hélt á Vestfjarðamið á mánudag.

Börkur frá Síldarvinnslunni, Aðalsteinn Jónsson frá Eskju og Margrét frá Samherja fóru af stað á þriðjudag. Árni, Polar og Aðalsteinn sjá um mælingar og hina eiginlegu leit en Börkur og Margrét eru til aðstoðar, segir í frétt Austurféttar.

Börkur, Aðalsteinn og Polar hafa leitað úti fyrir Austfjörðum og voru komin að Héraðsflóa þegar Austurfrétt ræddi við Birki Bárðarson leiðangursstjóra í gær. Á þeim slóðum hafa skipin lítið fundið enn. Margrét er nokkru norðar, úti af Vopnafjarðargrunni. „Þau eru að skoða vel upp á grunnin núna,“ segir Birkir.

Birkir er um borð í Árna Friðrikssyni sem er á Grænlandssundi.

„Við höfum séð loðnutorfur með kantinum úti fyrir Vestfjörðum. Við tókum prufur úr þeim torfum og þar reyndist vera ungloðna. Hún nýtist ekki á þessari vertíð en er efniviður fyrir þá næstu.“

Gert er ráð fyrir að loðnuleitarskipin mætist síðan úti fyrir Norðurlandi. „Það eru mikil svæði eftir ókönnuð úti fyrir Norður- og Norðausturlandi. Við munum skoða bæði djúpt og grunnt, enda er hefðbundin gönguleið loðnunnar meðfram landgrunnsbrúninni fyrir norðan. Við höfum heyrt frá bæði bátum og togurum af loðnuslöttum á stöku stað uppi á grunnunum fyrir Norðurlandi,“ segir Birkir við Austurfréttir.