Loðnuflotinn er nú við Snæfellsnes en þrátt fyrir að veðrið sé skaplegt í augnablikinu er lítið að hafa, að því er Grétar Rögnvarssonar skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU tjáði Fiskifréttum um ellefu leytið í morgun.

„Í gær voru bátarnir að kroppa með því að kasta mikið, en afraksturinn var misjafnt, allt frá litlu og upp í 200 tonn í kasti. Í nótt voru skipin svo í vari norðan við Nesið og svo eru einhverjir búnir að kasta núna en árangurinn lítill að ég held. Veðrið er allt í lagi eins og stendur meðan hann er snúa sér í suðvestanáttina en svo brælir á ný seinnipartinn og veðurútlit næstu daga er slæmt,“ sagði Grétar.

Enn er töluvert eftir óveitt af 100 þúsund tonna loðnukvóta Íslendinga. Landaður afli samkvæmt skrá Fiskistofu var 39.000 tonn í gærmorgun en þess ber að geta að tafir eru jafnan á því að allur veiddur afli skili sér á skrá. Björn Jónsson hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi áætlaði í samtali við Fiskifréttir í gær að bæta mætti um 20.000 tonnum við til þess að fá heildartölu yfir veiddan afla. Samkvæmt því voru þá um 40.000 tonn  enn óveidd.

Sjá nánar um loðnuveiðar og hrognavinnslu í nýjustu Fiskifréttum sem komu út í dag.