Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson eru nú óðum að loka hringnum í leiðöngrum sínum réttsælis og rangsælis um landið. Ennþá hefur ekki fundist neitt af loðnu sem byggjandi er á, að sögn Þorsteins Sigurðssonar sviðsstjóra hjá Hafrannsóknastofnun.
,,Einhver loðna hefur fundist hér og þar, en það er ekkert til að hlaupa til út af ennþá. Sú loðna sem mældist í desember er nú úti af Austfjörðum en hins vegar hefur verið frekar dapurt á norðursvæðinu. Skipin eru núna djúpt úti af Langanesi en það svæði hefur oft verið mikilvægt á þessum tíma. Við skulum því bíða og sjá hvað setur,” sagði Þorsteinn þegar Fiskifréttir ræddu við hann skömmu fyrir hádegi í dag.
Þorsteinn gerði ráð fyrir að skipin kláruðu yfirferð sína í kvöld eða á morgun. Eftir það yrði tekin ákvörðun um framhaldið.
Feril og staðsetningu rannsóknaskipanna má sjá á vef Hafrannsóknastofnunar, HÉR .