Sjávarútvegsfyrirtækið Viciunai Group er einn stærsti framleiðandi afurða úr súrími og fiski í Evrópu. Framleiðslan í heild nemur  yfir 120.000 tonnum á ári og eru 85% hennar flutt út.

Vörurnar eru seldar til yfir 40 landa og er fyrirtækið með 15 dreifingarmiðstöðvar og sölustöðvar víðs vegar um Evrópu. Hjá því vinna um 6.500 manns.

Þetta kemur fram á sjávarútvegsvefnum fis.com. Þar segir einnig að fyrirtækið bjóði um 3.000 afurðir sem séu seldar undir vörumerkjunum VICI, Esva, Columbus og fleiri merkjum.

Viciunai Group, sem stofnað var árið 1991,  kemur víða við í atvinnulífinu í Litháen. Samsteypan á 34 veitingahús sem dreifð eru víða um landið, er í flutningastarfsemi, bílasölu, brauðgerð og annarri þjónustu.