Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, harmar þá ákvörðun útgerðarfyrirtækisins Jakobs Valgeirs í Bolungarvík að segja upp 17 manns vegna breyttra reglna um línuívilnun í ýsu, en segir hana skiljanlega.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hafi með reglugerð sem skerti línuívilnun í ýsu gengið þvert á það sem Alþingi samþykkti í vor, en lofað hafi verið þegar lögum um stjórn fiskveiða var breytt að ekki yrði hróflað við línuívilnuninni.
„Þegar ýsulínuívilnunin er skert úr 2.100 tonnum í 1.100 tonn, þá eru þetta afleiðingarnar. Fólk á Vestfjörðum og Snæfellsnesi, línuútgerðir, standa algjörlega ráðþrota í dag. Það er óhemju ýsugegnd á miðunum og það er nánast ekki hægt að nýta þorskinn fyrir ýsu", segir Örn Pálsson í samtali við RÚV .
Örn segir að óskað hafi verið eftir því við ráðherra fyrir mánuði að reglugerðin yrði dregin til baka. Ekki hafi verið orðið við því: „Strax á morgun eigum við fund með atvinnuveganefnd þar sem við óskum eftir því að það verði staðið við það sem Alþingi samþykkti. Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og við sjáum að svona uppsagnir geta breiðst út ef þetta verður ekki tafarlaust tekið til baka og aukin prósentan í línuívilnun í ýsu".