Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, lönduðu bæði góðum afla í heimahöfn í Grindavík í vikunni. Páll Jónsson landaði á mánudaginn og Sighvatur í dag. Heimasíða Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, móðurfélags Vísis, ræddi stuttlega við skipstjórana.
Jónas Ingi Sigurðsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði að aflinn hefði verið um 100 tonn. „Aflinn fékkst í sex lögnum og það fengust 12-20 tonn í lögninni. Um 60% af aflanum var þorskur en síðan var töluvert af ýsu og löngu með. Það er reynt að takmarka þorskinn eins og frekast er kostur. Við hófum veiðar grunnt suður af Grindavík og fiskuðum okkur síðan vestur að Reykjanesinu. Túrinn var síðan kláraður á Eldeyjarbankanum,” sagði Jónas Ingi.
Sighvatur kom til löndunar í gærkvöldi og hófst löndun úr skipinu í morgun. Aflinn var 125 tonn eða fullfermi. Aðalsteinn Rúnar Friðbjörnsson skipstjóri var sáttur við veiðiferðina. „Það var mjög góð veiði allan tímann. Fiskurinn sem fékkst var stór og fallegur vertíðarfiskur, hvítur á kviðinn. Um 65% aflans er þorskur en síðan er mest af ýsu. Við hófum veiðar á Akraneshrygg, síðan var haldið út á Búðahraun og Arnarstapa og endað á Jökuldýpisbotni. Veðrið var sæmilegt allan tímann. Það verður haldið til veiða á ný í kvöld,” sagði Aðalsteinn Rúnar.