Verulegur samdráttur varð í laxveiði sumarið 2019 samanborið við árið á undan. Heildarfjöldi stangveiddra laxa var um 28.800 fiskar. Mest varð minnkunin í veiði á vestanverðu landinu en aukning kom fram í ám á Norðausturlandi.

Þessar bráðabirgðatölur um stangveiðina í sumar birtust í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun. Þar má sjá ýmsa tölfræði tengda veiðinni í sumar og aftur til ársins 1974.

Nokkur munur var á milli landshluta, en mestur var samdrátturinn í ám á vestanverðu landinu en í allnokkrum ám á norðaustanverðu landinu var veiðin meiri en hún var 2018.

„Veiðin 2019 var um 16.500 löxum minni en hún var 2018. Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði,“ segir í frétt Hafrannsóknastofnunar.

Laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni. Þegar litið er til veiða á villtum laxi eingöngu (ekki úr seiðasleppingum), að teknu tilliti til endurveiddra laxa, er líklegt að heildarstangveiðin árið 2019 hefði orðið um 20.000 laxar, sem væri minnsta stangveiði villtra laxa frá því farið var að skrá veiði í rafrænan gagnagrunn. Laxveiði minnkaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi Eystra og Austurlandi.

„Sumarið 2019 einkenndist öðru fremur af miklum og fordæmalausum þurrkum allt sumarið sem gerði aðstæður til veiða afar erfiðar, einkum í dragám á vestanverðu landinu sem eru mjög háðar úrkomu yfir sumarið,“ segir í fréttinni.