Audun Maråk framkvæmdastjóri Fiskebåt, samtaka norskra útvegsmanna, hellir sér yfir færeysk stjórnvöld á heimasíðu samtakanna í tilefni þess að þau hafa ákveðið 150.000 tonna makrílkvóta fyrir færeysk skip á þessu ári.
,,Færeyingar haga sér meira og meira eins og sjóræningjaþjóð,” segir Maråk og nefnir nokkur rök því til stuðnings. Í fyrsta lagi fimmfaldi þeir hlut sinn í heildarmakrílveiðunum miðað við sögulegan rétt sinn án þess að þar liggi að baki nein vísindaleg rök.
Í öðru lagi hafi Færeyingar staðið í vegi fyrir því að hægt væri að koma stjórn á karfaveiðar í Noregshafi og í Barentshafi í samræmi við veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Sama hafi verið uppi í teningnum þegar komið hafi að stjórnun veiða á NEAFC og NAFO svæðunum, til dæmis varðandi rækju.
Þá þrýsti Færeyingar einnig á að fá að fiska búra gegn vísindalegri ráðgjöf um stofna í útrýmingarhættu.
Að auki taki færeyskar útgerðir þátt í stjórnlausum veiðum á makríl í Kyrrahafi.
,,Færeyingar halda að þeir geti veitt 150.000 tonn á þessu ári og hafa ákveðið slíkan kvóta. Ef Norðmenn og ESB höguðu sér á sama veg myndi makrílstofninn hrynja,” segir talsmaður samtaka norskra útgerðarmanna.