Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur látið vinna mat á því hvaða áhætta fylgir mismunandi störfum. Þar kemur fram að það er allt að því tíu sinnum meiri hætta á því að látast við störf á sjó en við vinnu í landbúnaði eða við skógarhögg.

Öryggismál norskra sjómanna hafa lengi verið í brennidepli og margt hefur áunnist við að draga úr slysum á sjó. Sjómennska er engu að síður hættulegasta starfið í Noregi. Allra hættulegast er þó að vera um borð í minni bátum en sjómenn á stærri skipum búa við meira öryggi.

Áhættan á minni skipum er talin vera 1,8 sinnum meiri en á togurum og 6,8 sinnum meiri en á úthafsflotanum. Þá er 10 sinnum meiri áhætta að vera á sjó á minni bátum en að sinna landbúnaðarstörfum.

Árið 2008 lést enginn norskur sjómaður af slysförum úti á sjó. Árið 2009 seig á ógæfuhliðina en þá létust 11 sjómenn af slysförum þar af 4 á minni bátum. Árið 2010 urðu dauðsföllin 8 sem er alltof há tala.