Makrílveiðin í Síldarsmugunni hefur glæðst mjög að undanförnu. Síldarvinnslan segir frá þessu á heimasíðu sinni:
Bjarni Ólafsson AK lauk við að landa 1.100 tonnum í Neskaupstað í gærkvöldi og þá kom Börkur NK með 1.600 tonn. Það er því samfelld vinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og mikið að gera.
Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki, og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið.
„Þetta gekk heldur rólega framan af hjá okkur. Við leituðum talsvert og aflinn var ekki góður. En fyrir um það bil fjórum sólarhringum breyttist allt; við fundum torfur á blússandi norðurleið og allt í einu var töluvert að sjá. Fiskurinn sem þarna er á ferðinni er stór og miklu betri en sá fiskur sem við höfum áður fengið. Fiskurinn sem nú veiðist er 460 – 480 grömm og það er miklu minni áta í honum en í þeim fiski sem áður fékkst. Nú síðustu dagana hafa skipin gjarnan verið að fá 200 – 300 tonna hol og það er dregið í miklu styttri tíma en áður. Fyrir vinnsluna er þessi fiskur úrvalshráefni. Þetta svæði sem veitt er á er um 340 mílur frá Neskaupstað og við vorum í tæplega sólarhring að sigla með aflann til löndunar. Strax og fréttist af veiði þarna tók skipum að fjölga á svæðinu. Þegar við fórum í land voru þarna um 40 skip. Þarna voru öll íslensku og færeysku skipin og að auki voru komnir Rússar og einn Norðmaður. Það er semsagt mikið um að vera á svæðinu. Eitt er það sem við söknum þarna í Smugunni og það er sumarveðrið. Þarna hefur verið kaldur sjór og yfirleitt kaldafýla og vindur. Sumarið lætur bíða eftir sér,“ segir Hálfdan.