Það var líflegt um að litast á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum í morgun. Gullberg VE á leið á miðin og Huginn VE á leið til hafnar. Á meðan var verið að landa úr Breka VE. Allt að gerast, sem sagt, segir í frétt á vef Vinnslustöðvarinnar – vsv.is.

Huginn var með um 480 tonn af Íslandssíld. Breki var með 516 kör, rúmlega 140 tonn af blönduðum afla, þorski, ufsa, ýsu, karfa o.fl. Breki heldur aftur á miðin í kvöld. Gullberg VE er á leið á á sildarmiðin, vestur úr Faxaflóa. Þar hefur verið að veiðast íslensk síld.

Á morgun verða svo landanir úr Drangavík, Þórunni Sveinsdóttur og Kap. Að sögn Sverris Haraldssonar, sviðsstjóra bolfisksviðs eru öll þau skip með fínan afla. ,,Það spáir slæmu veðri og sjólagi á morgun en fer svo batnandi, ” segir Sverrir í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn.

Sumargotssíldin veiðist núna.
Sumargotssíldin veiðist núna.