Sveitarfélögin á Vestfjörðum vilja að gjald af fiskeldi renni beint til þeirra í staðinn fyrir að þau þurfi sækja það í Fiskeldissjóð. Mikið þurfi í innviðauppbyggingu enda vöxturinn hraður.

„Það hefur verið okkar stærsta baráttumál núna undanfarið að auðlindagjaldið af fiskeldinu renni beint til sveitarfélaganna. Við höfum auðvitað rætt þetta hvar sem við komum, þannig að við erum að vona að þessi málflutningur sé að ná í gegn,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Árið 2021 nam gjaldtaka vegna fiskeldis hér á landi um 150 milljónum króna og hafði þá nærri þrefaldast frá árinu áður. Fullvíst þykir að þessar upphæðir eigi eftir að hækka verulega á næstu árum.

Arna Lára segir að þetta fé muni skipta sköpum fyrir sveitarfélögin.

Mun breyta öllu

„Já, það myndi bara breyta öllu. Ekki síst vegna þess að við þurfum að standa straum af þeirri innviðauppbyggingu sem þarf til. Við þurfum að taka á móti nýju fólki og byggja leikskóla, laga hafnir og gatnakerfið og bara innviði almennt, allt sem þarf svo þessi atvinnugrein nái að blómstra. Þannig að þetta skiptir verulega miklu máli fyrir okkur.“

Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð tekur í sama streng: „Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir sveitarfélögin sem eru í fiskeldi. Kannski sérstaklega sveitarfélögin sem eru hér á Vestfjörðum því hér hafði verið samdráttur í íbúaþróun og þar af leiðandi lítil innviðauppbygging. Við þurfum því mikið í innviðauppbyggingu.“

Þær Þórdís Sif og Arna Lára segja það ekki hafa verið neitt launungarmál að sveitarfélögin hafi verið afar ósátt við það fyrirkomulag að gjaldið fari í sameiginlegan Fiskeldissjóð og þangað þurfi að senda inn umsóknir til að fá fé.

Vond samkeppni

„Það er vont að sveitarfélög séu sett í innbyrðis samkeppni um takmarkaða fjármuni og enn verra að nefnd sé sett í þá aðstöðu að vera að deila út þeim fjármunum,“ segir Þórdís Sif.

„Við þurfum þá að sækja um eins og hverjir aðrir betlarar til að fá tekjurnar okkar. Þetta hefur verið eins og að skrifa undir einhver bænabréf,“ segir Arna Lára.

„Það var ánægjulegt að á nýafstöðnu þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga var lögð fram skýrsla tekjustofnanefndar, og þar kemur þetta fram, að sveitarfélögin fái að njóta auðlindagjaldanna af þessari auðlind. Svo höfum við auðvitað rætt þetta við matvælaráðherra og fleiri sem sjá um utanumhald um þessa atvinnugrein. Þannig að við höfum fulla trú á því að þetta muni skila sér.“

Hraður vöxtur

Framleiðslan hefur vaxið hratt á allra síðustu árum og ekkert lát virðist ætla að verða á þeim vexti. Árið 2021 var heildarframleiðslan í fiskeldi komin upp í 53.000 tonn og þar af var eldislaxinn um 46.500 tonn, en þá er miðað við óslægðan fisk. Nú í ár er reiknað með að framleiðslan verði komin hátt í 50.000 tonn og innan fárra ára muni tugir þúsunda tonna bætast við. Þar við bætist svo landeldið, sem stefnir jafnvel á vera komið upp í 100 tonna framleiðslu áður en áratugurinn er úti.