Hafrannsóknastofnun leggur til að leyft verði að veiða 300 tonn af rækju í utanverðu Ísafjarðardjúpi í vetur. Aukaleiðangur var farinn á þessar slóðir í síðasta mánuði til að rannsaka betur ákveðin svæði, að því er fram kemur á vef bb.is.
Í kjölfarið breytti stofnunin fyrri tillögum sínum um veiðibann á þessum slóðum. Á síðasta ári voru leyfðar veiðar á 1000 tonnum af rækju í Djúpinu, en þá hafði gilt veiðibann í tíu ár á þessu svæði. Mælingarnar í haust sýndu að stofnvísitala rækju var langt undir meðallagi og hlutfall hrognarækju hafði lækkað frá árinu áður.
Hafrannsóknastofnun fundaði með heimamönnum á Ísafirði á mánudag. Ákveðið hefur verið að bridda upp á þeirri nýjung að fara í leiðangra með heimabátum í desember og febrúar til að kanna ástand rækjustofnsins í innanverðu Ísafjarðardjúpi, segir á vefnum bb.is.
Sjá nánar: http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=178231