Stærð rækjustofnsins í Barentshafi er nálægt hámarki að mati vísindamanna en afli veiðiskipanna er eigi að síður mjög lélegur. Óhætt er talið að veiða allt að 60.000 tonn á ári á þessu hafsvæði en aflinn hefur ekki verið nema þriðjungur af því eða um 20.000 tonn. Norskir rækjuskipstjórar skilja ekki hvernig á þessu stendur.

,,Við finnum hreinlega ekki það rækjumagn sem fiskifræðingarnir segja að eigi að vera á hefðbundnum miðum. Annað hvort hefur rækjan verið étin upp eða hún er að fela sig einhvers staðar,“ segir skipstjórinn á rækjutogaranum Hermes í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren.

Carsten Hvingel sérfræðingur hjá útibúi norsku hafrannsóknastofnunarinnar í Tromsö staðhæfir að rækjustofninn sé í góðu ástandi en hann bendir á að mörg stór og mikilvæg veiðisvæði séu lokuð til þess að vernda uppvaxandi rækju. Þetta þýði að veiðiskipin verði að flytja sig yfir á svæði sem minna gefi og því sé afkoman lakari en ella væri.

Norskar rækjuútgerðir hafa reynt að senda skip sín í Smuguna og í rússnesku lögsöguna í sumar til þess að freista gæfunnar en án árangurs. Örfá norsk skip eru eftir á þessum veiðum og fer þeim enn fækkandi. Þannig liggur rækjuskipið Remöy Viking í Tromsö og bíður útgerðin réttarúrskurðar um það hvort hún  megi selja það til Danmerkur.