Marsmánuður er alla jafna með betri mánuðum hjá smábátum sem gera út á línu en slæm tíð að undanförnu hefur sett stórt strik í reikninginn.
Á vef bb.is er vitnað í Gísla Reynisson, sem heldur úti vefsíðunni aflafrettir.is og fylgist náið með aflabrögðum skipaflotans. Gísli segir að yfirstandandi mánuður fari í sögubækurnar fyrir verstu sjósókn í mörg ár eða „í það minnsta sex ár eða frá því ég byrjaði að fylgjast með bátunum,“ skrifar Gísli. Hann segir ennfremur að aflabrögð báta í Bolungarvík hafi verið léleg í síðustu viku. Þá landaði Sirrý ÍS átta tonnum í þremur róðrum, Hrólfur Einarsson ÍS var með níu tonn í fjórum róðum og Einar Hálfdáns ÍS kom með ellefu tonn úr þremur veiðiferðum.
Þrátt fyrir brælutíð eru Bolungarvíkurbátarnir engu að síður aflahæstir í flokki smábáta stærri en 10 brúttótonn það sem af er mánuðinum. Sirrý ÍS er efst á listanum og var komin með 72 tonn eftir 14 landanir, Hrólfur Einarsson ÍS er með 67 tonn eftir 15 veiðiferðir, Einar Hálfdáns ÍS var kominn með 61 tonn etir 13 róðra og Guðmundur Einarsson ÍS er með 55 tonn í 15 róðrum.