Nafn ómannaða rannsóknabátsins sem norska hafrannsóknastofnunin hefur tekið í notkun er Frigg. Frigg Fjörgynsdóttir er höfuðgyðja í norrænni goðafræði, eiginkona Óðins og móðir Baldurs og Hermóðs hins hvata. Bente Kjøllesdal, samskiptaráðgjafi Norsku hafrannsóknastofnunarinnar, segir í tölvupósti til Fiskifrétta að stofnunin kanni nú hvernig eigi að innleiða nýja tækni í mælingum á uppsjávarfisktegundum.

Frigg er átta metra langur bátur og búinn berg málsdýptarmæli og öðrum hátæknibúnaði. Hann er þó ekki einn á ferð því honum fylgir mannaður stuðningsbátur. Norska hafrannsóknastofnunin hefur verið og er að prófa þessa tækni til að meta magn uppsjávarfisks í Harðangursfirði og Sognfirði. Gögnin berast á rauntíma með 4G farsímaneti og Starlink gervihnattarsambandi til stjórnstöðvar hafrannsóknastofnunarinnar í Bergen þaðan sem bátnum er stýrt. Enn fremur er verið að prófa svokallaðan kajakdróna sem gerir sams konar mælingar á enn grynnra vatni. Ómannaða farinu Frigg var fjarstýrt frá Bergen við mælingar í Harðangursfirði og Sognfirði.

Samanburður á gögnum frá mismunandi sjóförum

Við mat á brislingsstofninum við strendur Noregs á síðasta ári var í fyrsta sinn stuðst við fjarstýrða farið Frigg og auk þess kajakdrónann. Einnig var rannsóknaskipið Prinsessa Ingrid Alexandra við mælingar. Norska hafrannsóknastofnunin er nú að taka stór skref í átt að því að taka í notkun ómönnuð för við mælingar á fiskstofnum. Frigg dekkaði út breiðslu brislings í stærstum hluta Harðangursfjarðar, sem er þriðji stærsti fjörður heims. Þar safnaði hún gögnum með bergmálsdýptarmælingum og í tvo daga samfleytt var kajakdróninn notaður til að safna gögnum á grynnra vatni þar sem þéttleiki brislings var mikill.

„Næsta skref er að bera saman gögn sem bárust frá Frigg, kajakdrónanum og hefðbundnu rannsóknaskipi,“ segir Espen Johnsen, rannsóknastjóri hjá norsku hafró. Vísindamenn munu í framhaldinu leggja mat á frávik í gögnunum sem komu frá þessum þremur mismunandi mælingum.

Ómannaður kajakdróni gerði mælingar á grunnu vatni.
Ómannaður kajakdróni gerði mælingar á grunnu vatni.

Skilaði gögnum 90% tímans

„Við ætlum í framhaldinu að byggja upp líkan sem við komum til með að styðjast við þegar hafrannsóknastofnun breytir hægt og sígandi aðferðafræðinni úr því að nota hefðbundið rannsóknaskip við mælingar yfir í það að ómönnuð för verði hin hefðbundna aðferð við rannsóknir okkar. En við verðum að tryggja áframhaldandi gagnagæði úr leiðöngrum okkar,“ segir Johnsen. Prófanirnar í fyrra ná til tveggja sviða sem norska hafrannsóknastofnunin leggur mikla áherslu á þegar litið er til næstu ára; þ.e. ómönnuð för og stafræna tækni. Gögn frá tækjabúnaðinum í leiðangrinum í fyrra voru vistuð á hörðum diski og samtímis streymt til stjórnstöðvarinnar í Bergen þar sem tæknimenn gátu fylgst með því sem kom fram í bergmálsdýptarmælingunum. Niðurstöðunum var einnig streymt inn í skýjaþjónustu í gegnum Starlink. Nú fer fram samanburður á gagnaflutningi í gegnum 4G og Starlink sem á að leiða í ljós hvor aðferðin henti betur fyrir þessa tegund leiðangra. Frigg var notuð til gagnasöfnunar í samtals 200 klukkustundir og skilaði frá gögnum í 90% af þeim tíma, eða 180 klukkustundir.

Á grynnra vatni

Þegar fiskifræðingar höfðu mælt brisling í Harðangursfirði var haldið til mælinga í Sognfirði. Áhyggjur af því hvort hægt yrði að fjarstýra Frigg í Sognfirði frá Bergen og taka á móti gögnum reyndust ástæðulausar. Jafnvel í þrengstu víkum Harðangursfjarðar var nánast alltaf stöðugt og gott samband. Leiðangurinn í Harðangursfirði var ekki síst farinn til að auka skilning á því hvort bergmálsdýptarmælirinn í Frigg myndi skila jafngóðum eða jafnvel betri gögnum en hefðbundið rannsóknaskip. Ómannaða farið hefur það forskot að geta gert mælingar á grynnra vatni. Almennt voru gögnin sem það sendi af háum gæðum. Undanskilið er þó þegar mælingar fóru fram í mikilli ölduhæð sem hafði neikvæð áhrif á niðurstöður mælinga. Framundan er hjá tækniteyminu að finna lausn á nákvæmlega því vandamáli.