Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum frá Fiskistofu, Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun um hvort rétt sé að banna sjókvíaeldi í Eyjafirði, Jökulfjörðum og í sunnanverðum Norðfjarðarflóa, það er í Viðfirði og Hellisfirði. Eins hefur verið óskað eftir umsögnum þeirra sveitarfélaga sem málið varðar beint.
Samkvæmt lögum um fiskeldi getur ráðherra, að fengnum umsögnum fyrrnefndra aðila, takmarkað eða bannað fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart fiskeldi.
Nú er eldi laxfiska í sjókvíum óheimilt á tilteknum svæðum en Eyjafjörður, Jökulfirðir og sunnanverður Norðfjarðarflói eru ekki meðal þeirra svæða sem þar eru skilgreind. Ekkert þessara svæða hefur verið burðarþolsmetið og engin rekstrarleyfi eða umsóknir um rekstrarleyfi eru til staðar á þessum svæðum.