Norska sjávarútvegsfyrirtækið Pelagia hefur einsett sér að finna leið til að fjarlægja beingarðinn úr makrílflökum með vélrænum hætti. Takist það opnast fjölmargar leiðir til vinnslu og markaðssetningar á þessu eftirsótta sjávarfangi sem nú eru lokaðar.

Norska netfréttaveitan Tekfisk, sem er systurútgáfa Fiskeribladet og IntraFish, greinir frá því að um tveggja ára verkefni fyrirtækisins er að ræða. Um samstarf Pelagia er að ræða við rannsóknarfyrirtækið Moreforsking en einnig tæknifyrirtækin Marel og Baader.

Pelagia hefur fengið styrk frá norska ríkinu í gegnum rannsóknasjóðinn FHF, sem mætti kalla norsku útgáfuna á AVS-sjóðnum íslenska. Sjóðurinn leggur til rannsóknafé að upphæð 2,5 milljónir norskra króna, og er hluti af sérstöku verkefni er varðar vinnslu uppsjávarfisks og kallast Pelagisk Lift. Pelagia og samstarfsfyrirtækin Marel og Baader leggja annað eins til verkefnisins; bæði í beinum fjárframlögum og með vinnu sérfræðinga og búnaði sem þarf til. Fimm milljónir norskra króna eru rúmlega 70 milljónir íslenskra króna á gengi dagsins.

Tilefni þessarar viðleitni fyrirtækjanna til að vélvæða beinhreinsun makrílflakanna er einfaldlega sú að í dag eru flökin beinhreinsuð í höndum. Sú vinna er reidd af hendi í Kína og öðrum Asíulöndum þar sem lægri laun starfsmanna gera slíka vinnslu mögulega. Í vestrænum ríkjum er slíkt talið ógerlegt vegna kostnaðar og því er leitað vélrænna lausna.

Í algjörum forgangi

Arnt-Ove B. Kolås, tæknistjóri Pelagia, segir í viðtali við Tekfisk að verkefnið sé í algjörum forgangi hjá fyrirtækinu, sem endurspeglist í því að þriggja lausna er í raun leitað á sama tíma. Það er til marks um að menn telja sig ekki hafa neinn tíma að missa en fyrri tilraunir til að leysa þetta snúna verkefni hafa litlu skilað.

Fyrsta vers í rannsókninni er að kanna hvort hægt sé að beita efnalausnum til að mýkja bein makrílsins og komast þannig hjá því að fjarlægja þau. Slíkt er gert í annarri vinnslu, t.d. við vinnslu á síld. Þessi hluti rannsóknarinnar verður unninn af starfsmönnum Pelagia og vísindamönnum Moreforsking. Jafnhliða verður kannað hvort mögulegt er að fjarlægja beingarðinn og þar koma risarnir Marel og Baader til sögunnar.

Hvað Marel varðar verður kannað hvort vatnsskurðarvélar fyrirtækisins henta til verksins með nauðsynlegri aðlögun þeirrar tækni sem þegar er notuð með góðum árangri á hvítfisk og lax. Á sama hátt kannar Baader hvernig þeirra skurðartækni hentar til slíkrar vinnslu.