Leiguverð á þorski er komið í 330 krónur á kíló í aflamarkskerfinu og hefur tvöfaldast frá því sem það var lægst eftir hrun, að því er sjá má í frétt á vef Fiskistofu. Þar er birt verðþróun á aflamarki frá árinu 2005. Miðað er við hæsta verð hvern dag í viðskiptum með aflamark/krókaaflamark sem flutt er milli óskyldra aðila.
Undanfarin ár hafa verið miklar sveiflur á verði á afla- og krókaaflamarki í þorski. Verð á aflamarki var stöðugt í nokkurn tíma á fiskveiðiárinu 2006/07 þar sem það hélst í kringum 250 kr/kg. Á fiskveiðiárinu 2008/09 varð mikil verðlækkun í kjölfar bankahrunsins og fór verð á aflamarki niður í 160 kr/kg og verðið í krókaaflamarki fór enn neðar. Verðið náði lágmarki á útmánuðum 2009 en reis síðan hratt og komst í rúmar 270 kr/kg um haustið í aflamarkskerfinu en rétt undir 260 kr/kg í krókaaflamarkskerfinu. Verðið hélst síðan nokkuð stöðugt en í upphafi árs 2011 hækkaði það nokkuð og hefur haldist hátt til dagsins í dag. Verðið stendur nú í um 330 kr/kg í aflamarkskerfinu en 285 kr/kg í krókaaflamarkskerfinu. Verð í krókaaflamarki hefur alltaf verið nokkuð lægra en í aflamarki en sveiflur þær sömu í báðum kerfum, segir ennfremur á vef Fiskistofu.