Stofnunin segir að takmarka mætti núverandi fótspor botnlægra veiðarfæra, einkum línu og botntrolls, „umtalsvert án þess að það komi mikið niður á heildarafla.“
Hafrannsóknastofnun birti í vikunni skýrslu um vernd viðkvæmra botnvistkerfa, þar sem lagt er til að nokkur verndarsvæði verði stækkuð og nýjum bætt við.
„Þetta eru okkar tillögur, nú er það ráðuneytið sem tekur við,“ segir Steinunn Hilma Ólafsdóttir sjávarvistfræðingur, en hún er einn höfunda skýrslunnar.
Árið 2017 tók stofnunin saman upplýsingar um 16 svæði sem hafa verið lokuð fyrir botnveiðum, að hluta eða alveg, í meira en áratug.
Stofnunin segir fjögur svæði af þessum sextán skera sig úr varðandi rannsóknir og verndun vegna vistkerfa, en eitt þerra hefur verið lokað fyrir línu- og togveiðum í 45 ár eða síðan 1976. Hin þrjú hafa verið lokuð síðan 1993, eitt fyrir togveiðum eingöngu en hin tvö bæði fyrir línu- og togveiðum.
„Þessi svæði,“ segir í nýju skýrslunni, „eru öll nokkuð stór (980‐5972 km2) og mun verndun því líklega þjóna tilgangi sínum við vernd vistkerfa og þar af leiðandi mikilvæg við útnefningar svæða til nets vistkerfa. Æskilegt væri að hafa slík verndarsvæði við ólíkar aðstæður allt í kringum landið.“
Safna í sarpinn
Steinunn Hilma segir að þótt þessi fjögur svæði standi upp úr sé víða umhverfis landið mörg svæði sem ekki hafa verið kortlögð með tilliti til búsvæða og því ekki tímabært að koma með tillögur um vernd þeirra.
Stofnunin hefur undanfarin ár unnið jafnt og þétt að því að kortleggja hafsbotninn umhverfis landið og lífríkið sem þar er að finna.
„Við erum að safna í sarpinn, hvar sjáum við fjölbreytt svæði, hvar erum við að sjá eitthvað sem við höfum ekki séð áður. Svo berum við það saman við þekkingu annars staðar frá. Það tekur langan tíma að fá upplýsingar um þetta allt saman.“
Þegar metið er hvort vernda eigi viðkvæm botnvistkerfi er einkum litið til leiðbeininga frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, en að meginhluta eru þetta kóralsvæði og svampasvæði sem ástæða þykir til að vernda sérstaklega.
Mikilvægt hlutverk
Steinunn Hilma segir þessar botnverur gegna margvíslegu hlutverki í lífríkinu, og nefnir sem dæmi mikilvægan þátt þeirra í hringrás kolefnisbúskapar. Fleira kemur til.
„Svampar til dæmis eru síarar, þeir dæla sjónum inn í sig, sía úr honum efni og dæla honum út aftur og hreinsa sjóinn.“
Kóralrif mynda einnig mikilvæg þrívíddarbúsvæði fyrir aðrar lífverur,
„Svampar gera það raunar líka. Þeir veita skjól og það eru ótal felustaðir t.d. fyrir ungviði nytjastofna sem þessi svæði bjóða upp á. Þetta er svolítið margþætt. kóralsvæði mynda ákveðin „míkró-straumkerfi“. Þau draga að sér agnir sem falla sumar til botns og aðrar lífverur nýta sér þær. Svo eykur þetta fjölbreytni, laðar að tegundir. Þannig að vernd viðkvæmra vistkerfa er mikilvæg ekki bara sem felusvæði nytjastofna heldur einnig vegna þeirrar líffræðilegu fjölbreytni sem þar er að finna og þau jákvæðu áhrif sem þau hafa á sjávarvistkerfið í heild.“