Samkvæmt stofnmælingu haustið 2021 og í febrúar 2022 mældist rækjustofninn í Ísafjarðardjúpi undir skilgreindum varúðarmörkum. Mikil lækkun vísitölu haustið 2021 er talin skýrast af miklu magni ýsu í Ísafjarðardjúpi sem eykur afrán og breytir útbreiðslu rækju.
Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi hófust á fjórða áratug síðustu aldar. Á árunum 1961-2002 var rækjuafli 100 - 3.100 tonn. Engar rækjuveiðar voru heimilaðar í Ísafjarðardjúpi fiskveiðiárin 2003/2004 til 2010/2011 þar sem vísitala rækju var mjög lág. Eftir að veiðar hófust aftur haustið 2011 hefur aflinn verið 300 - 1.100 tonn. Afli á sóknareiningu hækkaði rólega frá 1961 til 2003. Frá 2011 hefur afli á sóknareiningu verið miklu hærri, aðallega vegna aukins þéttleika rækju innst í Djúpinu.
Frá árinu 2011 hefur útbreiðsla rækju einskorðast við innri hluta Ísafjarðardjúps, mest í Ísafirði og Mjóafirði. Mjög lítið fannst af rækju haustið 2021, en hún var helst í utan verðu Djúpinu og í Hestfirði. Í febrúar 2022 fannst hún helst í Ísafirði.