Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) leggur til að þorskkvótinn í Barentshafi á næsta ári takmarkist við 805.000 tonn. Það er 9% samdráttur miðað við kvóta yfirstandandi árs sem er 894.000 tonn.
Reyndar lagði (ICES) til í fyrra að þorskkvótinn árið 2016 yrði 805.000 tonn en norsk-rússneska fiskveiðinefndin ákvað að fylgja ekki því ráði og halda kvótanum óbreyttum í 894.000 tonnum í ár á þeirri forsendu að hlífa þyrfti bágstöddum loðnustofni við of miklu afráni af hálfu þorsksins. Óvíst er hvernig fiskveiðinefndin bregst við varðandi kvóta næsta árs.
Sérfræðingur norsku hafrannsóknastofnunarinnar metur það svo að veiðiráðgjöf fyrir þorsk í Barentshafi verði á bilinu 700-800 þúsund tonn næstu tvö til þrjú árin. Þorskstofninn er enn mjög sterkur þótt hann sé farinn að minnka frá hámarkinu fyrir þremur árum, þegar veiðiráðgjöfin hljóðaði upp á eina milljón tonna.
Ýsustofninn í Barentshafi er einnig sterkur þótt ICES leggi til 5% kvótasamdrátt á næsta ári. Lagt er til að leyft verði að veiða 233.000 tonn af ýsu.