Nýafstaðnar mælingar Hafrannsóknastofnunar benda til þess að  að hrygningarstofn loðnu verði um 660 þúsund tonn á hrygningartíma verði ekkert veitt. Samkvæmt aflareglu er gert ráð fyrir að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar.

Hafrannsóknastofnun leggur því til að heildaraflamark á vertíðinni 2014/2015 verði 260 þúsund tonn, að meðtöldum þeim afla sem þegar hefur verið landað á vertíðinni.

Alþjóðahafrannsóknaráðið veitti í maí sl. ráð um bráðabirgðaaflamark fyrir yfirstandandi vertíð. Byggði það mat á mælingum á ungloðnu í september 2013. Í matinu var gert ráð fyrir að án veiði gæti hrygningarstofninn orðið um 850 þúsund tonn árið 2015, og að heildaraflamark vertíðarinnar gæti orðið allt að 450 þúsund tonn. Þar sem framreikningar á niðurstöðum ungloðnumælinga er háð mikilli óvissu var beitt varúðarnálgun og lagði ráðið tilað upphafsaflamark yrði 225 þúsund tonn fyrir fiskveiðiárið 2014/2015.

Hafrannsóknastofnun mun mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar/febrúar 2015 og mun endurskoða tillögur um heildaraflamark gefi niðurstöður þeirra mælinga tilefni til þess.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.