Atvinnu- og viðskiptaráðuneytið norska hefur lagt fram nýtt lagafrumvarp um breytingar á hvíldartíma til sjós, að því er fram kemur á vef Norges Sildesalgslag.
Með frumvarpinu er stefnt að því að bæta og styrkja vinnuumhverfi sjómanna. Gert er ráð fyrir því að margir sjómenn fái lengri hvíldartíma um borð. Það muni væntanlega leiða til þess að sjómannsstarfið verði eftirsóttara en áður.
Í frumvarpinu er kveðið á um 10 klukkustunda lágmarkshvíld á sólarhring. Samkvæmt núgildandi lögum má skera hvíldartímann á sólarhring niður í allt að 6 tíma. Nú á að girða fyrir að svo mikið vinnuálag viðgangist nema hjá ákveðnum bátum sem veiða næst ströndinni.