Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi leggur til að rekstrarleyfishafar - fyrirtæki sem stunda fiskeldi í sjókvíum - greiði auðlindagjald. Ekki er gert ráð fyrir að fiskeldi, sem stundað er á landi greiði slíkt gjald.
Starfshópurinn leggur því til að auðlindagjald verði lagt á öll eldisfyrirtæki sem nýta sameiginlega auðlind, í þessu tilviki hafsvæði utan netlaga, til starfseminnar. Starfshópurinn leggur til að auðlindagjald geti verið allt að 15 krónur á hvert framleitt kíló af eldislaxi í sjó.
Þetta er ein þeirra tillagna sem kynnt voru í dag í samkomulagi Landssambands fiskeldisstöðva, Landssambands veiðifélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem fram kemur í skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi.
Eins segir í skýrslu starfshópsins að lagt sé til að áhættumat erfðablöndunar verði lagt til grundvallar því magni frjórra laxa sem heimilt er að ala í sjókvíum á hverjum tíma. Niðurstöður matsins, sem Hafrannsóknastofnun birti í síðasta mánuði, eru því að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land, en leggur til að ekki verði leyft eldi á frjóum laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá.
Í fréttatilkynningu um málið segir:
Starfshópurinn telur mikilvægt að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og verði þannig sterk og öflug atvinnugrein. Með hagfelldum rekstrarskilyrðum megi byggja upp fiskeldi á svæðum sem henta til slíks rekstrar og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Að sama skapi telur starfshópurinn mikilvægt að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis séu höfð að leiðarljósi. Einungis þannig muni nást sátt um framtíðaruppbyggingu fiskeldis. Starfshópurinn bendir á að slík sátt helstu hagsmunaaðila sé ekki einungis nauðsynleg fyrir uppbyggingu fiskeldis heldur skapi slík sátt markaðsleg sóknarfæri fyrir íslenskt fiskeldi til framtíðar, þar sem byggt er á umhverfisvænni ímynd. Því skuli rannsóknir ráða för við uppbyggingu fiskeldis - og í þeim tilfellum þar sem óvissa ríki um áhrif fiskeldis á vistkerfi eða umhverfi verði niðurstöður rannsókna lagðar til grundvallar ákvörðunum stjórnvalda.
Í skýrslunni eru settar fram tillögur sem starfshópurinn telur rétt að komi til framkvæmda og lúta þær að flestum þeim þáttum sem varða uppbyggingu fiskeldis, s.s. auðlindagjaldi, áhættumati, erfðablöndun, leyfisveitingum, eftirliti og opinberri birtingu gagna.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra; „Það er ljóst að fiskeldið hefur alla burði til að verða öflug og mikilvæg atvinnugrein. Við skulum hins vegar vanda til verka og tryggja að uppbyggingin verði á grunni vísindlegrar þekkingar með sjálfbærni og verndun lífríkis að leiðarljósi. Nú verða þessi mál rædd á komandi þingi og ég bind miklar vonir við að þverpólitísk sátt myndist um uppbyggingu fiskeldisins líkt og nú hefur náðst á milli hagsmunaaðila í störfum nefndarinnar.“