Sæmundur Elíasson, verkefnastjóri hjá Matís, segir að laxeldisiðnaðurinn standi frammi fyrir hertum reglum og þurfi að finna annan farveg fyrir laxablóð en að skola því út með frárennsli. Sæmundur var einn leiðbeinenda í rannsóknarverkefni sem tveir nemendur úr Háskólanum á Akureyri og einn frá Háskóla Íslands unnu í sumar og sneri að söfnun og nýtingu á blóði úr eldislaxi.

Auk þess sem SlippurinnDNG, Samherji fiskeldi, Eim og Háskólinn á Akureyri komu að verkefninu fékkst styrkur úr Nýsköpunarsjóði námsmanna hjá Rannís.

„Við vorum bæði að stúdera aðferðafræðina við að safna laxablóði, mæla hvernig það rennur úr fisknum og síðan að pæla í notagildi blóðsins,“ segir hann.

Blóðið fari ekki áfram í frárennslið

Lengra er verkefnið ekki komið í bili. „Þú leysir svona þróunarvinnu ekki með einu sumarverkefni. Við munum örugglega sækja um fleiri rannsóknarstyrki og ýta þessu áfram,“ segir Sæmundur.

Laxablóði safnað. Mynd/Sæmundur Elíasson
Laxablóði safnað. Mynd/Sæmundur Elíasson

Nánar  segir Sæmundur að verið sé að rannsaka hvort hægt sé að nota svokallaða þurrblæðingu í stað votblæðingar við slátrun eldislaxa.

„Í þurrblæðingu er fiskurinn blóðgaður í andrúmslofti þannig að hægt er að safna hundrað prósent ómenguðu blóði. En venjulega er skorið á hálsinn á fisknum og síðan fer hann í vatn og blæðir út þar þannig að blóðið fer í frárennsli,“ útskýrir Sæmundur.

Reikna með hertum reglum

Að sögn Sæmundar er blóð um tvö prósent af heildarþyngd laxa. Þannig megi gera ráð fyrir að í fyrra hafi fallið til um eitt þúsund tonn af laxablóði hérlendis. Matís sé nú í stóru Evrópuverkefni sem snúist um hreinsa vatn og minnka frárennsli.

„Ef blóðið næst úr fisknum að mestu leyti áður en honum er látið blæða út fæst náttúrlega miklu hreinna frárennsli. Þannig að ávinningurinn er tvíþættur. Eitt er að halda blóði úr frárennsli og annað er síðan að gera eitthvað gáfulegt við blóð sem hliðarafurð,“ segir Sæmundur.

Að því er Sæmundur segir býst laxeldisiðnaðurinn við því að takmarkanir verði settar á frárennsli. „Ef þú þarft að hreinsa fylgir því náttúrlega flækjustig og kostnaður þannig að það gæti einfaldað að ná blóðinu áður en það er þynnt út í frárennslisvatni,“ segir hann. Matís vilji byrja þróunarvinnu í kringum þetta.

Finni jákvæðar lausnir

„Í okkar huga er miklu betri leið að virkja svona strauma til verðmætasköpunar og skapa þannig hvata til þess að safna þessu og halda þessu úr frárennsli. Þannig að það verði til einhver svoleiðis jákvæður farvegur frekar en að komi íþyngjandi reglugerðir án þess að það sé búið að leysa hvað á að gera,“ segir Sæmundur.

Sæmundur Elíasson. Mynd/Aðsend
Sæmundur Elíasson. Mynd/Aðsend

Laxablóðið hefur marga möguleika til nýtingar. Það er járn- og próteinríkt og gæti verið fæðubótarefni fyrir fólk. Sæmundur segir þó mikla áskorun felast í því að safna laxablóð og vinna úr því fæðubótarefni fyrir fólk þannig að matvælaöryggi sé tryggt.

„Ég held að það sé ekki raunhæft að safna þúsund tonnum af blóði á ári og að það verði að fæðubótarefni. Þú getur skapað hávirðisvöru en þá fylgir kostnaður því ferli en okkur langar líka að skoða aðrar leiðir. Við þurfum að finna líka einhverjar lægravirðis lausnir sem ráða við magnið,“ segir Sæmundur.

Dýrafóður og litarefni

Lágmarkskröfuna segir Sæmundur vera að staðið verði undir förgunarkostnaði. „Ef fara á í fæðubótarefni þá þarf að uppfylla mjög strangar reglur. En ef til dæmis á að nota blóðið í dýrafóður, blöndunarefni til að ná einhverjum lit fram eða æti fyrir einfrumuprótein, eru alveg möguleikar í því.“

Sæmundur segir að dýrt sé að hreinsa blóð úr frárennsli áður en það er látið fara. Draumastaðan sé að ná blóðinu út á öðrum stað í ferlinu sem verðmætri afurð svo það verði ekki mengunarvaldur. „Þá er bæði búið að létta á íþyngjandi hreinsunarbúnaði í annan endann og vonandi að ná einhverju virði úr vinnsluferlinu.“

Nánar má fræðast um rannsóknina frá í sumar á vef Háskólans á Akureyri og á vefsíðu Matís.

Slippurinn DNG útbjó söfnunarþró fyrir verkefnið. Mynd/Sæmundur Elíasson
Slippurinn DNG útbjó söfnunarþró fyrir verkefnið. Mynd/Sæmundur Elíasson