Fiskeldi hefur á síðustu árum skipt færeyskan þjóðbúskap stöðugt meira máli. Það má glöggt sjá í nýjustu tölum frá Hagstofu Færeyja.
Þar má sjá að lax er næstum helmingur af öllum útflutningi Færeyinga það sem af er árinu. Þetta er mikill vöxtur frá árinu 2013 þegar útflutningur á laxi var innan við 40% af heildarútflutningi .
Útflutningsverðmæti í laxi eru um 40 milljarðar ÍSK það sem af er ári, sem er um 4 milljörðum meira en í fyrra. Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar hefur verðmæti útflutningsins aukist um 12% en magnið ekki nema um 6%.
Þó vel gangi hjá Færeyingum í sölu á laxi hefur heildarútflutningur sjávarafurða frá landinu dregist saman. Fyrstu þrjá ársfjórðungana voru fluttar út vörur fyrir 88 milljarða ÍSK sem er 4 milljörðum ÍSK minna en á sama tímabili í fyrra. Einkum hefur dregið úr útflutningi á uppsjávarfiski sem er 25% minni en á sama tíma í fyrra. Verðmæti þess útflutnings dróst saman um 30%.