Sjávarútvegssýningin í Boston, Seafood Expo North-America, opnaði um helgina. Þar er búist við mörg þúsund gestum og sýnendur eru mörg hundruð talsins úr öllum hornum heimsins. Meðal nýjunga í matvælum úr sjávarfangi sem kynntar eru á sýningunni eru þrjár vörulínur íslenska fyrirtækisins Næra sem hjónin Hörður og Holly Kristinsson reka.

Vörulínan er kynnt undir liðnum New Product Showcase á bás 3165 á sýningunni. Þar eru kynntar aðrar nýjungar sem komið hafa á markað á undanförnum 18 mánuðum í Bandaríkjunum. Vörulína Næra er úr þurrkuðum fiski með stökkri áferð og er nokkurs konar viðbit, stútfullt af omega-3 fitusýrum og próteini. Vörur sem sagðar eru henta sérstaklega vel útivistarfólki og raunar öllum sem kjósa heilnæma fæðu úr sjávarríkinu.
Fyrsta varan til að nefna frá Næra er Wasabi Salmon Crunchy Fish Bites sem eins og nærri má geta er bragðsterkt snakk gert úr laxi með japönsku wasabi kryddsósunni. Einnig kynnir Næra snakk úr þurrkuðum laxi með jalapeno og loks þá þriðju með sýrðum rjóma og lauk. Síðastnefnda tegundin er komin alla leið í úrslit keppninnar. Þar etur hún kappi um hylli dómenda við tíu aðrar vörutegundir erlendra framleiðenda. Úrslitin verða kynnt á síðari dögum sýningarinnar.